Sturlunga saga

Sturlunga saga er þýðingarmesta rit sem til er um íslenska viðburði á 12. og 13. öld, margslungin stríðssaga um valdabaráttu höfðingja, bregður upp lifandi mannlýsingum og sviðsetur örlagaþrungna atburði sem leiddu til þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á vald laust eftir miðja þrettándu öld.

Sturlunga saga er sagnasafn sett saman fyrir sjö öldum úr mörgum sögum og þáttum í þessari röð: Geirmundar þáttur heljarskinns, Þorgils saga og Hafliða, Ættartölur, Sturlu saga, Formáli, Prestssaga Guðmundar Arasonar góða, Guðmundar saga dýra, Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar, Haukdæla þáttur, seinni hluti Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, Þórðar saga kakala, Svínfellinga saga, Þorgils saga skarða, Sturlu þáttur og loks viðauki. Í þessari útgáfu eru ennfremur brot úr jarteinum Guðmundar Arasonar, brot úr Þorgils sögu skarða, sjálfstæð gerð Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og Árons saga. Í hverju bindi útgáfunnar eru valdarmyndir eftir efni. Skýringar á vísum og ýmsum efnisatriðum eru neðanmáls við textann.

Formáli fylgir fyrsta bindi, ennfremur 46 ættskrár og nokkur landakort. Síðast í þriðja bindi er nafnaskrá með stiklum um helstu viðburði á ævi sögupersóna.

Guðrún Ása Grímsdóttir gaf út með formála, skýringum og skrám.
Ritstjóri Þórður Ingi Guðjónsson.